Gæti ekki komið í veg fyrir evrópskt hrun

Frá kauphöllinni í Frankfurt. Í bakgrunninum má sjá hvert hlutabréfavísitalan …
Frá kauphöllinni í Frankfurt. Í bakgrunninum má sjá hvert hlutabréfavísitalan stefnir. Reuters

Neyðarsjóður Evrópusambandsins gæti að óbreyttu ekki staðið undir neyðaraðstoð til handa Spánverjum fari svo að landið stefni í greiðsluþrot eins og nokkrar líkur eru taldar á. Þýddi það neyðarástand á evrusvæðinu en talið er að ef Portúgal þurfi neyðaraðstoð sé Spánn næstur á listanum.

Þetta kemur fram í úttekt Wall Street Journal en þar segir að Evrópusambandið geti ekki nýtt þær 750 milljarða evra að fullu sem haldið hefur verið fram að sambandið geti gripið til þegar í harðbakka slær.

Um þriðjungurinn eigi að koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem geti hins vegar ekki lagt fram fé án samþykkis aðildarríkja hans.

Afgangurinn, eða 500 milljarðar evra, eigi að koma frá Evrópusambandinu.

Lán en ekki styrkir

Höfundur greinarinnar, Ian Talley, leggur áherslu á að hér séu á ferð lán, ekki styrkir, sem þurfi að hafa lánshæfiseinkunina -AAA.

Til að fá slíka einkunn þurfi varasjóður ESB að leggja til 40% upphæðarinnar sem veðtryggingu. Að teknu tilliti til allra þátta geti ESB því lánað út um 250 milljarða evra.

Til viðbótar séu 60 milljarðar evra úr öðrum sjóði sem þýði að alls hafi sambandið 310 milljarða evra til að spila úr, að því er Talley kveðst hafa fengið staðfest hjá ónafngreindum hagfræðingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Talley segir að hratt muni ganga á þá upphæð enda muni Írar að líkindum fá 60 milljarða evra úr sjóðnum og Portúgalar, komi til þess að þeir lendi í greiðsluerfiðleikum, á milli 50 og 100 milljarða evra. Samkvæmt þessu standa eftir í besta falli 200 milljarðar evra, sé miðað við að Portúgalar þurfi 50 milljarða evra.

Að sögn Talleys getur neyðarsjóður ESB því geti ekki staðið undir neyðaraðstoð til handa Spánverjum enda sé varlega áætlað að þeir þurfi á 300 milljörðum evra að halda til að standa undir endurfjármögnun ríkisskulda. Er þá aðeins litið til næstu þriggja ára.

Fjármögnunarþörf Spánverja sé með öðrum orðum meiri en sem nemur samanlögðu svigrúmi Evrópusambandsins til neyðaraðstoðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert