Hjaðningavíg í Rio

Almennir borgarar eiga fótum sínum fjör að launa í Complexo …
Almennir borgarar eiga fótum sínum fjör að launa í Complexo do Alemão-hverfinu í dag. Reuters

Tveggja ára gömul stúlka og ljósmyndari Reuters-fréttastofunnar eru á meðal þeirra sem hafa særst í átökum lögreglu í Rio de Janeiro í Brasilíu við fíkniefnagengi í fátækrahverfum borgarinnar í þessari viku. Sjö manns létust í aðgerðum lögreglu í gær.

Hingað til liggja að minnsta kosti 49 manns í valnum en aðgerðir beinast nú aðallega að fátækrahverfinu Complexo do Alemão sem er höfuðvígi eins elsta fíkniefnagengisins í Rio, Rauðu herdeildarinnar. Breska blaðið The Guardian greinir frá þessu á vefsíðu sinni i dag.

Í gærkvöldi skutu meðlimir gengjanna á þyrlur lögreglu þegar hundruð lögreglu- og hermanna umkringdu fátækrahverfið þar sem um 70 þúsund fátækir íbúar borgarinnar búa. Nefnast hverfin favelas í daglegu tali.

Hin tveggja ára gamla Giovana Isabela de Penha var flutt á sjúkrahús eftir að hafa verið skotin á heimili sínu í Nova Brasilia-hverfinu sem tilheyrir Complexo do Alemão.

Þá var ljósmyndarinn Paulo Whitaker skotin í vinstri öxlina þegar hann myndaði skotbardaga á milli lögreglu og þungvopnaðra fíkniefnasalanna. Samkvæmt einni frásögn sagði Whitaker læknum að hann hefði sjálfur fjarlægt kúluna úr öxlinni.

Samkvæmt heimildum innan lögreglunnar hafa fíkniefnasalarnir beint sjónum sínum að blaðamönnum og óbreyttum borgurum á jaðri fátækrahverfisins. Í tilkynningu Reuters segir þó að Whitaker hafi lent í skothríð úr nokkrum áttum.

Í viðtali við brasilíska sjónvarpsstöð í beinni útsendingu í gærkvöldi sagði yfirmaður öryggismála í Rio de Janeiro, José Mariano Beltrame að aðgerðunum yrði haldið áfram. 

„Við getum ekki dregið í land. Við verðum að halda áfram. Við verðum að ná undir okkur svæði, stjórna því og halda áfram,“ sagði Beltrame sem bersýnilega var mikið dregið af. 

Óviðunandi ofbeldi

Mannréttindasamtökin Amnesty International hvöttu stjórnvöld til þess að fara fram á yfirvegaðan hátt og innan marka laga til þess að bregðast við ofbeldisöldu glæpagengja sem riðið hefur yfir Rio de Janeiro. 

„Ofbeldið er algerlega óviðunandi en viðbrögð lögreglu hafa setta samfélagið í hættu. Yfirvöld verða að tryggja að öryggi og velferð samfélagsins í heild séu í forgangi í hverjum þeim aðgerðum sem þau grípa til í íbúðabyggðum,“ sagði Patrick Wilcken, sérfræðingur samtakanna í Brasilíu.



Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert