Biðja Wikileaks að birta ekki skjölin

Julian Assange stofnandi Wikileaks.
Julian Assange stofnandi Wikileaks. ANDREW WINNING

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa skrifað Julian Assange, stofnanda síðunnar Wikileaks, bréf þar sem skorað er á hann að birta ekki leyniskjöl um samskipti Bandaríkjanna við erlend ríki. Talið er hugsanlegt að skjölin verði birt í dag.

Í bréfi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir að birting skjalanna muni setja líf fjölmargra í hættu.

Skjölin sem Wikileaks er með eru talin vera allt að sjöfalt fleiri en skjölin sem síðan birti fyrr á þessu ári um stríðið í Afganistan og Írak, en þau voru um 400 þúsund. Skjölin eru sögð hafa að geyma upplýsingar um diplómatísk samskipti Bandaríkjanna við önnur ríki. Líklegt er talið að þar sé m.a. að finna skýrslur um mat Bandaríkjanna á einstökum ríkjum og einstökum stjórnmálamönnum. Slíkar leyniskýrslur eru oft opinskáar og geta verið móðgandi fyrir þá sem fjallað er um.

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur á síðustu dögum haft samband við mörg ríki til að vara við því sem gæti verið í vændum. M.a. hefur verið haft samband við íslenska utanríkisráðuneytið, en einnig Ástralíu, Bretland, Kanada, Ísrael, Rússland og Tyrkland.

Ekki er vitað hvenær Wikileaks ætlar sér að birta skjölin, en erlendir fjölmiðlar hafa reiknað með að það muni gerast í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert