Silvio Berlusconi er hégómafullur og vanhæfur sem nútímalegur leiðtogi Evrópu, Dmitry Medvedev er eins og Robin við hlið Vladimir Pútíns sem Leðurblökumaðurinn og Kim Jong-il er skvapholda gamall karl. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í leyniskeytum sem Wikileaks hefur gert opinber og breska blaðið The Guardian segir frá í kvöld.
Í skeytunum sem koma frá sendiráðum Bandaríkjanna um allan heim má finna skoðanir stjórnvalda í Washington á hinum ýmsu leiðtogum heims, orðaðar á afar óformlegan hátt. Þýska blaðið Der Spiegel, sem fékk aðgang að gögnunum, segir að birting þeirra feli í raun í sér hrun bandarískrar utanríkismálastefnu.
Síðla árs 2008 sendi sendiráðið í Mosvku skeyti heim til Washington um sambandið á milli Dmitry Medvedevs forseta Rússlands og forsætisráðherrans Vladimir Pútíns. Þar er sagt að þrátt fyrir að Medvedev sé formlega valdameira en Pútín sé hann eins og aðstoðarmaðurinn Robin við hlið Leðurblökumannsins.
Kim Jong-il, einræðisherra Norður-Kóreu, fær ekki betri útreið en embættismenn líkja honum við skvapholda gamlan karl og sem manni sem hafi orðið fyrir líkamlegu og sálrænu áfalli eftir heilablóðfall sem hann fékk.
Sendiráðið í París segir um Nicholas Sarkozy forseta Frakklands að hann sé „hörundssár og hafi gerræðislegan stíl“ eftir að fréttir bárust af því að hann hafði sett ofan í við félaga sína og franska forsætisráðherrann.
Um forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, er sagt að hann sé „gagnslaus, hégómafullur og vanhæfur sem nútímalegur leiðtogi Evrópu“. Í öðru skeyti frá Róm segir að hann sé „líkamlega og pólitískt veikburða“ leiðtogi og að „tíðar næturskemmtanir hans og óhófleg skemmtanafýsn þýðir að hann fái ekki nógu mikla hvíld“.
Þá er mikilvægum bandamönnum í stríðinu gegn hryðjuverkum ekki hlíft heldur. Forseti Afganistan, Hamid Karzai, er sagður „mjög veikgeðja maður sem hlustar ekki á staðreyndir en lætur þess í stað hvers kyns furðusögur eða ráðabrugg gegn honum hafa auðveldlega áhrif á sig“.
Binyamin Netanyahu er sagður „virðulegur og heillandi“ en hann haldi aldrei loforð sín samkvæmt sendiráðinu í Kairó sem hefur það eftir Hosni Mubarak forseta Egyptalands. „Ég hef sagt honum það í eigin persónu,“ er haft eftir Mubarak.