Kína vill viðræður um N-Kóreu

Suður-Kóreanskur hermaður vaktar landamærin við Norður-Kóreu.
Suður-Kóreanskur hermaður vaktar landamærin við Norður-Kóreu. AP

Stjórnvöld í Kína hafa lagt fram tillögu um að boðað verði til viðræðna um kjarnorkuvopnaáætlun N-Kóreu og að í þeim viðræðum taki þátt þær sex þjóðir sem eiga mestra hagsmuna að gæta á svæðinu.

Tillagan gengur út á að S-Kórea, N-Kórea, Kína, Bandaríkin, Japan og Rússland ræði saman um stöðuna á Kóreuskaga. Þjóðirnar hafa átt í formlegum viðræðum um málið, en þeim var slitið í apríl í fyrra.

Wu Dawei, talsmaður stjórnvalda í Kína í málefnum N-Kóreu, sagði tillaga Kína væri lögð fram eftir ítarlega skoðun. Hann lagði til að viðræðurnar færu fram í Peking í desember. Hann sagðist ekki reikna með að viðræðurnar byggðu á því að N-Kórea legði til hliðar kjarnorkuvopnaáætlun sína, en kvaðst vona að stefnt yrði í þá átt.

Stjórnvöld í Japan brugðust við yfirlýsingu Kína í morgun og sögðu að þau myndi hafa samráð við S-Kóreu og Bandaríkin um viðbrögð. Stjórnvöld í S-Kóreu sögðu í morgun að þau væru tilbúin til viðræðna um afvopnum N-Kóreu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert