Tölvuárás gerð á Wikileaks

Fulltrúar WikiLeaks á blaðamannafundi í Lundúnum fyrir skömmu.
Fulltrúar WikiLeaks á blaðamannafundi í Lundúnum fyrir skömmu. Reuters

Wikileaks segir að verið sé að gera tölvuárás á vefsvæðið, en stjórnendur síðunnar ætluðu í kvöld að birta milljónir bandarískra leyniskjala.

„Við erum núna undir umfangsmikilli árás,“ segir Wikileaks á twitter, en miðað við þessar upplýsingar má segja að stríð hafi brotist út á netinu.

Skjölin sem Wikileaks ætlaði að birta í kvöld eru sögð hafa að geyma upplýsingar um diplómatísk samskipti Bandaríkjanna við önnur ríki. Líklegt er talið að þar sé m.a. að finna skýrslur um mat Bandaríkjanna á einstökum ríkjum og einstökum stjórnmálamönnum. Slíkar leyniskýrslur eru oft opinskáar og geta verið móðgandi fyrir þá sem fjallað er um.

Forsvarsmenn síðunnar hafa þegar látið nokkur dagblöð fá gögnin og  verða þau birt jafnvel þótt Wikileaks-síðan hrynji. Dagblöðin eru El País á Spáni, Le Monde í Frakklandi, Spiegel í Þýskalandi, Guardian á Bretlandi og The New York Times.

Bandarísk stjórnvöld sögðu fyrr í dag að með birtingu skjalanna væri líf fjölda manna stefnt í hættu.  Julian Assange, stofnandi Wikileaks, sagði að bandarísk stjórnvöld væru hrædd við að þurfa að svara fyrir gerðir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert