Skjölin sem uppljóstrunarsíðan Wikileaks hyggst birta næst ná yfir öll helstu málefni í heiminum í dag að sögn stofnanda síðunnar, Julians Assanges. Talið er að skjölin verði birt á síðunni í kvöld.
„Þau gögn sem við erum í þann veginn að birta ná í raun yfir öll helstu málefni í öllum löndum í heiminum,“ sagði Assange rannsóknarblaðamönnum í Jórdaníu. Talaði hann við blaðamenn í gegnum fjarfundarbúnað og sagði hann að Jórdanía væri ekki besti staðurinn til að vera á þegar menn væru með bandarísku leyniþjónustuna CIA á eftir sér. Ekki er vitað hvar hann var staddur á meðan hann ræddi við blaðamenn.
Talið er að aðeins nokkrar klukkustundir séu þar til að birt verði hundruð þúsunda leyniskeyta bandarískra embættismanna og hefur það skotið stjórnvöldum víða um heim skelk í bringu en þau óttast að þar kunni að leynast skaðlegar upplýsingar fyrir þau.
„Undanfarinn mánuð hef ég aðallega eytt orku og kröftum mínum í að undirbúa birtingu diplómatískrar sögu Bandaríkjanna. Þetta eru yfir 250 þúsund leynileg skeyti frá bandarískum sendiráðum um allan heim og við sjáum nú þegar að á síðustu viku eða svo hafa Bandaríkin reynt að draga úr mögulegum áhrifum þess,“ sagði Assange.
Háttsettir bandarískir embættismenn hafa undanfarið verið á þönum við að draga úr skaðlegum áhrifum birtingarinnar með því að vara fjölda stjórnvalda við, m.a. mikilvæga bandamenn eins og Ástrala, Breta, Kanadamenn, Ísraela og Tyrki.