Myrti kærustuna og gróf í fangelsi

Hollendingur sem situr í fangelsi í Perú hefur játað að hafa kyrkt kærustu sína sem var í heimsókn í fangelsinu og að hafa grafið hana í klefa sínum. Viðurkenndi hann verknaðinn þegar fangaverður spurðu hann út í óþef í klefanum. 

Yfirvöld fundu ekki lík hinnar 22 ára gömlu Leslie Paredes Silva fyrr en þremur mánuðum síðar.

Jason Sanford Stalig Conquet, 32 ára, játaði verknaðinn eftir að fangaverðir spurðu um óþef sem lagði frá steypuskör sem hann hafði búið til í horni klefans til þess að fela líkið.

Fangelsismálastjóri landsins, Wilson Hernández, sagði í útvarpsviðtali að kærasta Hollendingsins hafi heimsótt hann einhvern tímann í ágúst.

„Svo virðist sem þau hafi rifist í klefanum sem endaði með því að hann kyrkti hana. Hann játaði líka við lögreglu að hann hefðu byggt nokkurs konar steypubekk í klefanum og að hann hefði grafið kærustuna þar,“ sagði hann.

Málið hefur leitt til mikillar gagnrýni á fangelsismálayfirvöld fyrir að fylgjast ekki með gestum í fangelsinu og hversu yfirfullt það er. Það var byggt á sjöunda áratug síðustu aldar fyrir 2.000 fanga en það hýsir nú fjórfaldan þann fjölda.

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert