Skaut sex NATO-hermenn til bana

Bandarískir hermenn í Afganistan.
Bandarískir hermenn í Afganistan. Reuters

Vopnaður maður sem var klæddur í afganskan lögreglubúning skaut sex hermenn til bana í Nangarhar héraði í austurhluta Afganistans í dag, en hermennirnir voru við æfingar í Pachir Wagam. Þetta segir talsmaður NATO og bætir við að árásarmaðurinn hafi einnig látist.

Embættismenn á svæðinu telja að maðurinn hafi ekki skotið á hermennina af ráðnum hug, heldur hafi þetta gerst í kjölfar misskilnings.

NATO hefur ekki gefið upp frá hvaða landi hermennirnir eru sem létust. Heimildir breska ríkisútvarpsins herma að mennirnir hafi verið bandarískir.

Talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins segir að árásarmaðurinn hafi ekki verið að villa á sér heimildir. Hann hafi starfað sem landamæravörður. NATO hefur ekki staðfest þetta, en segir að málið sé í rannsókn.

Það er hins vegar þekkt að talibanar hafa gert árásir klæddir sem lögreglumenn. Um helgina létust 12 lögreglumenn þegar tveir sjálfsvígssprengjumenn, sem voru klæddir í lögreglubúninga, réðust á þá í héraðinu Paktika.

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert