Háttsettur þingmaður repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum vill að utanríkisráðuneytið skilgreini uppljóstrunarsíðuna Wikileaks sem erlend hryðjuverkasamtök og að stjórnvöld finni leið til að lögsækja Julian Assange stofnanda síðunnar.
Fulltrúadeildarþingmaðurinn Peter King sem á sæti í innanríkisöryggismálanefnd þingsins (House Homland Security Comission) hvatti í bréfi um helgina ríkissaksóknara Bandaríkjanna Eric Holder að sækja Assange til saka og bað einnig Hillary Clinton utanríkisráðherra um að setja síðuna á lista yfir erlend hryðjuverkasamtök í kjölfar nýrra leyniskjala sem gerð voru opinber í gærkvöldi.
„Þetta er ákaflega skaðlegt fyrir bandaríska hermenn, hagsmuni og leyniþjónustu,“ sagði King í dag en bandaríska fréttstofan Fox News segir frá þessu.
Í bréfinu segir ennfremur að auk nýjustu uppljóstrana síðunnar þá hafi fyrri lekar um stríðin í Írak og Afganistan sett líf bandarískra borgara í hættu og skaðað traust á milli stjórnvalda og bandamanna þeirra. Hvatti þingmaðurinn til þess að taka Assange og aðgerðir hans föstum tökum.
Sagði hann að það að skilgreina samtökin sem erlend hryðjuverkasamtök myndi gera Bandaríkjamönnum kleift að gera eignir þeirra upptækar og að koma í veg fyrir að aðrir aðstoðuðu þau.
„Samtökin standa í hryðjuverkastarfsemi. Það sem þau gera er augljóslega að aðstoða og styðja hryðjuverkahópa. Annað hvort er okkar alvara í þessum málum eða ekki,“ sagði King.