Stjórnvöld í Ekvador bjóða Assange velkominn

Julian Assange.
Julian Assange. Reuters

Stjórnvöld í Ekvador hafa boðið Julian Assange, stofnanda uppljóstrunarvefjarins Wikileaks, að flytjast búferlum til landsins, án nokkurra skilyrða.

„Við erum reiðubúin að veita honum dvalarleyfi í Ekvador, án nokkurra vandamála og án skilyrða,“ segir Knitto Lucas, aðstoðarutanríkisráðherra landsins, í samtali við fréttasíðuna Ecuadorinmediato.

„Við munum bjóða honum að koma til Ekvador svo hann geti kynnt að vild þær upplýsingar sem hann býr yfir og öll skjöl. Ekki aðeins á netinu heldur eftir ýmsum almennum leiðum,“ segir Lucas.

Um miðjan þennan mánuð var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Assange, sem er 39 ára gamall Ástrali. Er hann grunaður að hafa nauðgað tveimur konum í Svíþjóð.

Bandarísk stjórnvöld hafa greint frá því að lögreglurannsókn sé hafin á því hvernig Wikileaks gat komist yfir og birt leynileg bandarísk sendiráðsskjöl á netinu. 

Talsmaður Hvíta hússins í Washington segir að þeir sem birtu skjölin séu glæpamenn. Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar ekki gefið út formlega ákæru á hendur Assange.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert