Amazon hætti að hýsa WikiLeaks

Kristinn Hrafnsson í viðtali við Reutersfréttastofuna.
Kristinn Hrafnsson í viðtali við Reutersfréttastofuna. Reuters

Bandaríska vefverslunin Amazon hætti síðdegis að nota netþjóna sína til að hýsa uppljóstrunarvefinn WikiLeaks. Mjög erfitt hefur verið að komast inn á síðuna síðan.

Bandaríski þingmaðurinn Joe Lieberman sagði í yfirlýsingu að Amazon hefði tilkynnt sér í dag að WikiLeaks væri ekki hýstur þar lengur. „Ég vildi að Amazon hefði tekið þessa ákvörðun fyrr á grundvelli þeirra leyniskjala, sem WikiLeaks hefur birt áður," sagði Lieberman. „En ákvörðun fyrirtækisins um að loka á WikiLeaks nú er rétt og ætti að setja viðmið fyrir önnur fyrirtæki, sem WikiLeaks notar til að dreifa ólöglega fengnu efni."

Kristinn Hrafnsson, einn talsmanna WikiLeaks, vísar því á bug í samtali við Reutersfréttastofuna í kvöld, að það sé ólöglegt að birta bandaríska sendiráðspósta og önnur leyniskjöl, sem vefurinn hefur komist yfir. 

Kristinn segir, að almenningur eigi rétt á að vita hvað embættismenn, sem starfa í hans þágu séu að gera. Þá sagði hann af og frá að birting skjalanna muni skaða tengsl landa. 

„En ef jafnvægi í heiminum byggist á blekkingum og lygum gæti þurft að hrista upp í því," sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert