Clinton um Wikileaks

Hillary Clinton, utanríkisráðherra, segir að Bandaríkin fordæmi harðlega ólöglega birtingu leynilegra upplýsinga. Hún stofni lífi fólks í hættu, ógnar þjóðaröryggi okkar og grefur undan tilraunum okkar til að vinna með öðrum þjóðum að því að leysa sameiginleg vandamál.

„Ríkisstjórnin fylgir öflugri utanríkisstefnu sem miðar að því að styrkja þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna og hafa forystu í heiminum um að leysa flóknustu viðfangsefni okkar tíma, eins og að laga efnahagsástand heimsins, hindra alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi, stöðva útbreiðslu gereyðingarvopna og stuðla að mannréttindum og alþjóðlegum gildum. Í öllum löndum og í öllum heimshlutum vinnum við að því með samstarfsþjóðum okkar að ná þessum markmiðum.

Við skulum því tala skýrt: Þessi uppljóstrun er ekki aðeins árás á utanríkishagsmuni Bandaríkjanna. Þetta er árás á alþjóðasamfélagið – bandalögin og samstarfsríkin, viðræðurnar og samningagerðirnar, sem tryggja öryggi heimsins og stuðla að efnahagslegri velmegun.

Ég er þess fullviss að það samstarf sem ríkisstjórn Obamas hefur unnið svo ötullega að því að byggja upp muni þola þessa áskorun. Við forsetinn höfum gert þetta samstarf að forgangsverkefni – og við erum stolt af þeim framförum sem það hefur áorkað – og það mun áfram verða þungamiðjan í starfi okkar.

Ég mun ekki tjá mig um eða staðfesta það sem fullyrt er að séu stolin skeyti utanríkisráðuneytisins. En ég get sagt að Bandaríkin harma mjög birtingu allra upplýsinga sem áttu að vera trúnaðarupplýsingar, þar á meðal einkasamtöl starfsbræðra okkar eða persónulegt mat og athuganir sendifulltrúa okkar. Ég vil taka fram að opinber utanríkisstefna okkar er ekki mótuð í gegnum þessar orðsendingar, heldur hér í Washington. Stefna okkar er opinber og kemur fram í yfirlýsingum okkar og gerðum um allan heim.

Ég vil líka bæta því við, fyrir bandarísku þjóðina og vini okkar og samstarfsmenn, að við höfum gripið til stórtækra aðgerða til að draga þá til ábyrgðar sem stálu þessum upplýsingum. Ég hef fyrirskipað sérstakar ráðstafanir í utanríkisráðuneytinu, auk nýrra öryggisaðgerða í varnarmálaráðuneytinu og annars staðar til að vernda upplýsingar utanríkisráðuneytisins til að svona brot geti ekki og muni ekki gerast aftur.

Samskipti ríkisstjórna eru ekki eina áhyggjuefnið sem fylgir birtingu þessa efnis. Bandarískir stjórnarerindrekar hitta baráttumenn fyrir mannréttindum, blaðamenn, trúarleiðtoga og aðra sem standa utan raða stjórnvalda og tala opinskátt um innsýn sína. Þessi samtöl byggjast líka á trausti og trúnaði. Til dæmis, ef baráttumaður gegn spillingu deilir upplýsingum um misferli opinberra aðila, eða ef hjálparstarfsmaður afhendir skjöl um kynferðislegt ofbeldi, gæti uppljóstrun um hver viðkomandi er haft alvarlegar afleiðingar: Fangelsun, pyndingar, jafnvel dauða.

Hverjar sem hvatirnar að baki því að dreifa þessum skjölum eru þá er ljóst að birting þeirra skapar raunverulega hættu fyrir raunverulegt fólk, og oft og tíðum fólk sem hefur helgað líf sitt því að verja aðra.

Ég geri mér grein fyrir að sumir kunni, fyrir misskilning, að hrósa þeim sem bera ábyrgð á þessu, svo ég vil koma þessu á hreint: Það er ekkert lofsvert við það að stofna saklausu fólki í hættu og það er ekkert hetjulegt við að skemma friðsamleg samskipti þjóða sem öryggi okkar allra veltur á," segir í yfirlýsingu sem Clinton gaf fyrir tveimur dögum og er nú birt fullri lengd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert