Öfundsverð ritsnilld í skjölum Bandaríkjamanna

Ramzan Kadyrov forseti Tsjetsjeníu er mikill gleðipinni ef marka má …
Ramzan Kadyrov forseti Tsjetsjeníu er mikill gleðipinni ef marka má skýrslur bandarískra diplómata. SERGEI KARPUKHIN

Þótt Bandaríkjamenn engist nú um í vandræðagangi yfir ýmsum neyðarlegum upplýsingum sem lekið hafa frá WikiLeaks um starfsemi sendiráða þeirra um allan heim þá geta þeir að minnsta kosti huggað sig við það að yfirvöld innan Evrópusambandsins öfunda þá af því hversu vandaðar skýrslur diplómatar þeirra virðast senda frá sér.

„Evrópsku skýrslurnar eru algjört rusl miðað við þetta. Þetta eru pólitísk skrif, þau eru hárbeitt, nánast skáldleg," hefur vefritið EUobserver eftir ónefndum embættismanni Evrópusambandsins í dag.

Sem dæmi um orðsnilld bandarískra diplómata má nefna skjal frá sendiráði Bandaríkjanna í Moskvu í Rússlandi, sem lýsir upplifun ónefnds embættismanns af brúðkaupi í Dagestan í Kákasus. Í brúðkaupið mættu ýmsir háttsettir stríðsherrar ásamt forseta Tsjetsjeníu, Ramzan Kadyrov. Í skýrslunni, sem er 3.400 orð, er því m.a. lýst hvernig Kadyrov dansar „klunnalega með gullhúðaða skammbyssu aftan í buxnastrengnum". Gríðarlegri drykkju brúðkaupsgesta samfellt í þrjá daga eru gerð lífleg skil, auk þess sem diplómatinn lýsir matseldinni í veislunni með þessum orðum: „Kokkarnir virðast halda heilu skrokkunum af rollum og kúm sjóðandi í nornakötlum einhverstaðar nótt sem nýtan dag og slengja fram sundurlimuðum skönkum í hvert sinn sem einhver gengur inn í herbergið".

„Þetta setur ný viðmið í ríkiserindrekstri. Skýrslurnar okkar eru ótrúlega langar og skrifaðar á þurru stofnanamáli," segir evrópski embættismaðurinn ónefndi. „Við höfum engar skoðanir heldur felum þær á bak við innihaldslaust stofnanamál vegna þess að kerfið er svo valdaskipt að við megum ekki opinbera skoðanir okkar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert