Bresk stjórnvöld eiga von á því að fljótlega verði gefin út ný handtökuskipun á hendur Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, samkvæmt heimildum BBC. Fyrri handtökuskipuninni á hendur Assange í Evrópu var hafnað þar sem hún var ekki lögmæt.
Assange er eftirlýstur í Svíþjóð í tengslum við nauðgunarmál. Yfirmaður bresku skrifstofunnar sem fer með skipulagða glæpastarfsemi, Serious Organiesed Crime Agency, (Soca), neitaði að tjá sig við BBC um málið. Soca fer með evrópskar handtökuskipanir í Bretlandi.
Assange, sem er talinn vera í Bretlandi, neitar ásökunum og segir að þær séu hluti af rógherferðinni gegn sér. En eins og fram hefur komið hefur WikiLeaks birt ógrynni leynilegra skjala.