Að minnsta kosti 25 manns særðust í átökum á milli sílesku lögreglunnar og íbúa á Páskaeyju í dag. BBC hefur eftir vitnum að lögreglan hafi skotið plastkúlum að fólki í aðgerðum sem miðuðu að því að rýma nokkrar byggingar sem hópur frumbyggja lagði hald á fyrr á þessu ári.
Páskaeyja, sem var innlimuð í Síle árið 1888, er á heimsminjaskrá UNESCO. Rapa Nui frumbyggjarnir segja að byggingarnar hafi verið teknar af forfeðrum þeirra með valdi. Aðgerðir lögreglu hófust snemma morguns og þegar frumbyggjarnir neituðu að yfirgefa byggingarnar gripu lögreglumenn til vopna. Fjöldi manna var handtekinn og að minnsta kosti einn var fluttur með sjúkraflugi til meginlandsins.
Lögmaður Rapa Nui frumbyggjanna segir að árás lögreglu hafi verið afar gróf og svo virðist sem þetta muni enda á því að Rapa Nui fólkið verði drepið. Rapa Nui er opinbert nafn hinna afskekktu Páskaeyju, sem liggur í um 3.200 km fjarlægð frá vesturströnd Síle. Um 4.000 manns búa á eyjunni, sem er þekkust fyrir gríðarstór, forn steinhöfuð.
Rapa Nui fólkið hefur undanfarna þrjá mánuði mótmælt áætlunum sem þau segja að séu uppi um „framþróun" á eyjunni, sem feli m.a. í sér fjölgun ferðamanna og innflytjenda. Þau krefjast þess að fá aftur eignarhald yfir landi og eignum forfeðra sinna.