Vilja bandaríska sendiherrann á brott

Philip Murphy, sendiherra Bandaríkjanna í Berlín.
Philip Murphy, sendiherra Bandaríkjanna í Berlín. Reuters

Þýskir stjórnmálamenn hafa hvatt til þess, að skipt verði um sendiherra Bandaríkjanna í Berlín og segja að Philip Murphy sé ekki lengur trúverðugur fulltrúi Bandaríkjamanna.

Ástæðan er skjöl, sem WikiLeaks birti og sýna að Murphy hefur verið afar dómharður um þýska ráðamenn. Helmut Metzner, starfsmannastjóra þýska utanríkisráðherrans, hefur verið vikið úr embætti en í ljós kom að hann veitti sendiherranum leynilegar upplýsingar.

Fram kemur m.a. í skjölunum, að Metzner hefur veitt Murphy upplýsingar um stjórnarmyndunarviðræðurnar milli núverandi stjórnarflokka, Kristilegra demókrata og Frjálsra demókrata. Í sendiráðsskjölunum er viðræðunum lýst í smáatriðum.

Hans Michael Goldmann, þingmaður Frjálsra demókrata, sagði í gær að hann teldi Murphy ekki lengur trúverðugan sendiherra og að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, eigi að kalla hann heim. Fleiri þingmenn hafa tekið undir þessa skoðun.

Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sagði hins vegar að stjórnvöld hefðu engin áform um að biðja um að sendiherrann yrði kallaður heim og tengsl Þýskalands og Bandaríkjanna væru traust.

Í einni af sendiráðsskýrslunni, sem WikiLeaks birti í vikunni frá þýska sendiráðinu í Berlín, er Merkel meðal annars lýst sem áhættufælinni og lítið skapandi. Þá er Guido Westerwelle, utanríkisráðherra, sagður hégómlegur ónytjungur sem sé gagnrýninn í garð Bandaríkjanna.  

  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert