Bandaríkin hafa sent tvær sérútbúnar flugvélar hlaðnar 40 tonnum af efnum til að kæfa eld til Ísraels þar sem verstu skógareldar í sögu landsins geisa. Bandaríkjamenn heita því að aðstoða Ísraela við að ná slökkva eldana og vonast stjórnvöld í Ísrael til þess að stjórn náist á aðstæðum í dag.
Bandarísku vélarnar tvær bætast í hóp tuga flugvéla sem bandamenn Ísraels hafa sent þeim til aðstoðar. Bandaríkjamenn hafa mikla reynslu af baráttunni við skógarelda og segir sendiherra þeirra í Ísrael að með flugvélunum komi tæknilið sem búi yfir mikilli sérþekkingu og geti gefið góða ráðgjöf.
41 maður hefur látist vegna eldanna og 17.000 hafa þurft að flýja heimili sín. Yfir 400 ekrur af skóglendi nærri hafnarborginni Haifa er nú aðeins brunarústir. Flugvélar frá Rússlandi, Tyrklandi, Grikklandi, Bretlandi, Frakklandi og Kýpur hafa sveimað yfir svæðinu síðustu daga og sleppt vatni á eldtungurnar. Auk bandarísku vélanna eru flugvélar frá Spáni, Azerbaijan og Sviss væntanlegar til landsins til að aðstoða við að slökkva eldana.