Stjórnvöld í Ekvador hafa lækkað viðbúnaðarstig vegna eldgossins í Tungurahua þar sem ekki er talið að um jafn stórt eldgos sé að ræða lík og óttast var í gær. Hefur viðbúnaðarstigið verið lækkað úr rauðu í appelsínugult.
Í gær voru þorp og bæir í nágrenni eldfjallsins rýmd en einhver virkni hefur verið í Tungurahua í ellefu ár. En árið 1999 varð mikið eldgos í fjallinu og þurftu fimmtán þúsund íbúar að yfirgefa heimili sín og gátu ekki snúið aftur fyrr en eftir eitt ár.
Meðal annars voru íbúar bæjarins Banos beðnir um að yfirgefa heimili sín en bærinn er mikill ferðamannabær. Þangað koma milljónir ferðamanna á hverju ári þar sem þaðan er haldið inn í Amazon skóginn.
Stærsta eldgosið í Tungurahua í manna minnum var í ágúst 2006 en þá létust sex og hundruð heimila eyðilögðust.