Kínverskur embættismaður í í Henan-héraði hefur verið handtekinn eftir að hafa um helgina bakkað yfir fimm ungmenni í borginni Luoyang. Þau létust öll en embættismaðurinn var drukkinn undir stýri.
Mikil reiði ríkir í Kína vegna þessa slyss og fjölda annarra að undanförnu þar sem drukknir ökumenn hafa valdið banaslysum. Að þessu sinni var það pósthússtjóri sem hafði fengið sér einum of mikið neðan í því, með þessum skelfilegu afleiðingum.
Stjórnvöld í Kína hafa verið að herða viðurlög við ölvunarakstri. Í júní á þessu ári var kínverskur lögmaður dæmdur til dauða eftir að hafa ekið drukkinn inn í mannfjölda og drepið fjóra vegfarendur með aksturslagi sínu, auk þess sem átta særðust alvarlega.