Myrti fimm mánaða gamlan son sinn

Frá Tokyo
Frá Tokyo mbl.is/Una

Japanskur fjölskyldufaðir var í morgun dæmdur til dauða af þarlendum dómstól fyrir að hafa myrt eiginkonu sína, barn og tengdamóður.

Hinn 22 ára gamli  Akihiro Okumoto, sem áður gegndi þjónustu í flugher Japans, var fundinn sekur fyrir að hafa kyrkt fimm mánaða gamlan son sinn og að hafa barið eiginkonu sína og móður hennar til dauða með hamri í mars síðastliðnum.

Dómarinn fór fram á dauðarefsingu með þeim rökum að Okumoto hefði framið morðin af einskærri sjálfselsku, hann hefði þráð að búa einsamall og losna við þær kvaðir sem fylgdu fjölskyldulífi.

Morðin þykja óvenju grimmdarleg og komið hefur fram að Okumoto hafi framið morðin þrjú á stundarfjórðungi.

Hann viðurkennir sekt sína, en hefur haldið því fram sér til málsbóta að tengdamóðir hans hafi beitt hann andlegu ofbeldi með stöðugum fúkyrðaflaumi sem hafi haft áhrif á andlegt ástand hans til hins verra.

Þetta er í þriðja skipti sem dauðadómur er kveðinn upp í Japan eftir að nýtt réttarkerfi var tekið upp í maí í fyrra.

Japan og Bandaríkin eru einu iðnvæddu lýðræðisríkin þar sem dauðarefsing er í gildi.



Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert