Bylting í danska skólakerfinu

Tina Nedergaard
Tina Nedergaard www.uvm.dk

Danir hyggja á breytingar á grunnskólakerfinu og  verða breytingarnar kynntar í dag. 

Mörgum brá við niðurstöður PISA-rannsóknarinnar, sem kynnt var í gær. Þar kom í ljós að stærðfræðiárangur danskra nemenda er lakari en áður og að lesskilningur þeirra hefur staðið í stað undanfarin tíu ár.

Þetta kemur fram á vefsíðu danska dagblaðsins Politiken.

Þar segir danski menntamálráðherrann, Tina Nedergaard, að stefnt sé að því að gera danska grunnskólann að einum þeim besta í heimi. Miklum peningum sé varið til reksturs skólanna, en það hafi ekki skilað sér sem skyldi. Menntamálaráðherrann telur að kominn sé tími á breytingar á skólamenningu landsins.

Meðal þess sem breytingarnar fela í sér er lenging á skóladegi nemenda í 1. - 4. bekk og verður hann eftir breytingarnar sex klukkustundir á dag. Leggja á meiri áherslu á leik og hreyfingu í yngstu bekkjunum.

Nemendur eiga að fá einkunnir í öllum námsgreinum frá og með sjöunda bekk og allir nemendur eiga að vera læsir í lok þriðja bekkjar. Séu þeir það ekki, eiga þeir að fá stuðning. Fjölga á prófum, ekki síst í 2. og 3. bekk.

Ráða á lestrarsérfræðinga í alla skóla og afnema á reglur um hámarksfjölda nemenda í bekkjum.

Auka á faglegt starf í skólum. Til að ná því markmiði á að endurskoða kennaramenntun og auka rannsóknir á sviði kennslu - og menntamála.

Gera á skólastjórum kleift að gera meiri kröfur til foreldra skólabarna, ekki síst hvað varðar hegðun, aga og þjálfun í lestri, segir í frétt Politiken.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert