Geta Írar lært af Íslendingum?

Reuters

Ísland hefur náð sér upp úr djúpum öldudal eftir að hafa látið gjaldmiðilinn hrapa og þvegið hendur sínar af bankahruninu.

Þetta segir á vef breska blaðsins Telegraph í dag. Þar er þeirri spurningu velt upp hvort Írland ætti að nota sömu aðferðir til að rétta við efnahag sinn.

Í fréttinni segir að vöxtur hafi verið í efnahagskerfi Íslands upp á síðkastið og að margt bendi til frekari bata á komandi ári. Bent er á að á Íslandi hafi verið verðbólga og mikil gengislækkun en Írland hafi fengið utanaðkomandi evrulán.

Niðurstaðan sé að löndin tvö eru í ólíkri stöðu. Halli á íslenska þjóðarbúinu verði 6,3% í ár og horfur séu jákvæðar. Halli Írlands sé 12% og horfur séu ekki bjartar á næsta ári.

Ennfremur er atvinnuleysi í löndunum tveimur borið saman. Á Írlandi er það rúm 14%, hér er atvinnuleysi 7,3%, varð mest 9,7%.

Haft er eftir talsmanni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Ísland hafi staðið sig einkar vel og tekist að standa vörð um norræna velferðarkerfið. Hann segir að heildarskuldir Íslands muni mest verða um 115% af þjóðarframleiðslu, þær verði 80% árið 2015 en skuldir Írlands muni halda áfram að aukast næstu þrjú árin. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert