Tölvuþrjótar hafa verið atkvæðamiklir í stuðningi sínum við WikiLeaks undanfarna daga. Hafa þeir markvisst herjað á vefi fyrirtækja og stofnana sem hafa annað hvort snúið baki við WikiLeaks varðandi fjármagnsflutninga eða hafa komið að ásökunum á hendur stofnanda uppljóstrunarvefjarins, Julian Assagne.
Á sama tíma hefur WikiLeaks birt gögn sem sýna að bandarísk stjórnvöld líta á Kínverja sem hættulegan keppinaut í Afríku.
Vefur sænska stjórnarráðsins varð óvirkur í dag eftir að hópur tölvuþrjóta sem kallar sig „Anonymous" (nafnlaus) beindi nethernaði sínum í þá átt í morgun. Í gær réðust þeir til atlögu gegn vefjum Visa og Mastercard með þeim árangri að vefir fyrirtækjanna voru óvirkir.
Skipuleggjendur hóps hinna nafnlausu segja að þúsundir sjálfboðaliða hafi boðið fram krafta sína til að verja WikiLeaks og Assagene. Hann er nú í gæsluvarðhaldi í Lundúnum en sænsk yfirvöld hafa farið fram á að hann verði framseldur til Svíþjóðar í tengslum við ásakanir um að hann hafi framið kynferðisglæpi þar í landi.
„Þetta er upplýsingastríð. Við erum að reyna að halda netinu opnu og frjálsu fyrir hvern sem er alveg eins og netið hefur alltaf verið," segir talsmaður Anonymous, Coldblood, en samkvæmt AFP fréttastofunni talar hann með breskum hreim.
Í viðtali við BBC segir hann að helstu skotmörkin í þessu stríði séu Amazon, Mastercard, Visa og PayPal.
Í viðtali við AFP segir hann að í upphafi þeir verið fimmtíu en nú eru þeir um fjögur þúsund talsins og hvergi nærri hættir.