Forkólfar facebook, þeir Mark Zuckerberg og Dustin Moskovitz, hafa nú bæst í ört stækkandi hóp milljarðamæringa sem hafa skuldbundið sig til að gefa í það minnsta helming auðæfa sinna til mannúðarsamtaka.
Bill Gates og Warren Buffet, tveir ríkustu menn í heimi, standa fyrir átaki sem miðar að því að fá sem flesta milljarðamæringa í heiminum til þess að vinna slíkt heiti. Nú hafa 57 milljarðamæringar heitið helmingi auðæfa sinna til mannúðarmála í tengslum við átak þeirra Gates og Buffets. Þeir félagar stefna ótrauðir áfram en í milljarðamæringar eru um 400 talsins í Bandaríkjunum einum samkvæmt upplýsingum frá Forbes tímaritinu.
Átakið heitir Gjafaheitið eða The Giving Pledge og snýst aðallega um að veita milljarðamæringum siðferðislegt aðhald en samtökin taka hvorki á móti peningum né heldur ákveða þau hvert peningarnir eigi að fara.
Milljarðamæringarnir sem gengist hafa við skuldbindingunni er það svo í sjálfs vald sett hvort þeir gefi auðæfin í lifanda lífi eða í formi arfs.
Því er við að bæta að Mark Zuckerberg gaf nýlega um 100 milljónir Bandaíkjadala til skólastarfs í New Jersey. Auðæfi Zuckerbergs eru nú metin á um 6,9 milljarða Bandaríkjadala.
Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.