Gerði makrílsamning að skilyrði

Makríll.
Makríll.

Evrópusambandið (ESB) krafðist þess að Færeyingar gerðu þríhliða langtíma samkomulag við ESB og Noreg um makrílveiðar áður en samningur ESB og Færeyja um fiskveiðar á næsta ári yrði undirritaður. Færeyingar féllust ekki á það og var viðræðunum slitið í gær.

Samningaviðræður Færeyinga og Evrópusambandsins (ESB) um fiskveiðar 2011 hófust í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn var. Viðræðunum var slitið síðdegis í gær. Fiskimálaráð Færeyja greindi frá þessu, að sögn fréttavefjar færeyska dagblaðsins Sosialurin

ESB tengdi fiskveiðisamninginn við Færeyinga við samning um makrílveiðar. Samningur við Færeyinga um fiskveiðar á næsta ári var bundinn því skilyrði að ESB, Noregur og Færeyingar gerðu langtíma samning um makrílveiðar á föstudag. Fulltrúar ESB greindu frá þessari afstöðu sinni síðdegis í gær.

Blaðið segir að Jacob Vestergaard, landsstjórnarmaður, hafi gagnrýnt ESB, líkt og Noreg, fyrir að binda samning milli Færeyja og ESB skilyrði um þríhliða makrílsamkomulag. Hann sagði að Færeyingar geti ekki með neinu móti fallist á það.

Færeyingar voru reiðubúnir að skrifa undir fiskveiðisamning við ESB en fulltrúar ESB voru ekki á því nema með fyrrgreindu skilyrði um makrílsamkomulag. Því var viðræðunum slitið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert