Lá við að skotvopnum yrði beitt

Lögreglumenn áttu við ofurefli að stríða í mótmælunum í Lundúnum …
Lögreglumenn áttu við ofurefli að stríða í mótmælunum í Lundúnum í gær. Reuters

Háttsettur foringi innan bresku lögreglunnar segir að minnstu hafi munað að hans menn hafi gripið til vopna í gær þegar mótmælendur réðust að bíl Karls Bretaprins og Kamillu, eiginkonu hans. Segir hann lögregluna hafa sýnt fádæma mikla þolinmæði.  

Mikil mótmæli brutust út meðal stúdenta í London í gær vegna áforma stjórnvalda um að hækka námsgjöld. Er Karl og Kamilla voru á leið í leikhús í miðborg Lundúna gerðu mótmælendur aðsúg að bíl þeirra, slettu yfir hann málningu og brutu rúðu í bílnum. Af svip þeirra hjóna að dæma var þeim verulega brugðið.

Talaði lögregluforinginn um þrjóta en ekki mótmælendur í útvarpsviðtali sem BBC átti við hann í morgun. Tekist hefði að vernda hjónin konunglegu fyrir árásunum en ítarleg rannsókn myndi fara fram á atvikinu. Spurður hvort lögreglan hefði mögulega þurft að grípa til skotvopna svaraði hann: „Ég held að þið og hlustendur getið dregið ykkar eigin ályktanir."

Í mótmælunum í gær voru 34 handteknir og minnst 43 mótmælendur og 12 lögreglumenn særðust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert