Árás mótmælenda á bíl Karls Bretaprins og eiginkonu hans í gærkvöldi hefur vakið upp spurningar um gæði öryggisgæslu bresku konungsfjölskyldunnar.
Æstur múgur réðist að bíl parsins er hann var á leið niður Regent Street í miðborg Lundúna. Málningu var kastað yfir hann og brotnaði bílrúða í látunum. Um tuttugu mótmælendur klifruðu upp á bílinn, nokkrir með flöskur, og öskruðu meðal annars „látum hausana af þeim fjúka,“ og „íhaldsmanna-sori.“ Að sögn fréttamiðla þar í landi sakaði parið ekki en sjónarvottar segjast hafa séð Karl skýla konu sinni sem virtist frekar skelkuð.
Parinu var fljótlega bjargað úr bílnum og þau keyrð heim á leið í merktum lögreglubíl. Camilla var víst fljót að jafna sig og gerði gys að atvikinu. „Allt verður einhverntímann fyrst.“
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi árásina og sagði að það yrði að refsa þeim sem eiga þar sök. Hann játaði að vera mjög áhyggjufullur yfir því hvernig öryggisgæsla prinsins brást en sagði þó að hún ætti ekki alla sök þar sem mótmælendur hafi verið mjög ákveðnir í að beita ofbeldi.
Fjöldi nemenda mótmæltu harðlega í dag tillögu þingmanna um að hækka skólagjöld í háskóla á Englandi í 9.000
pund á ári (um 1,6 milljónir kr.). Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu sem
fram fór í þinghúsinu í Lundúnum um hálf sex leytið.