Virðingarleysi ástæða PISA-útkomu

Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn.
Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Miklar umræður eru um skólamál þessa dagana í Danmörku, eftir heldur slælega útkomu þarlendra grunnskólanemenda í PISA-rannsókninni.

Ein ástæðan fyrir þessum árangri er talin vera skortur á virðingu danskra foreldra fyrir kennurum og skólastarfinu.

Frans Ørsted, sem er aðjúnkt við danska uppeldisháskólann (Danmarks Pædagogiske Universitetsskole) hefur borið saman skólakerfi Dana og Finna. Í viðtali á vef danska dagblaðsins Politkein segir hann að ein af ástæðum góðs árangurs finnskra grunnskólabarna sé að þar í landi beri foreldrar mikla virðingu fyrir kennurum. Finnskir kennarar sendi foreldrum skýr skilaboð að þeir búi yfir sérfræðikunnáttu á sviði náms og kennslu, en það sé eitthvað sem danskir kennarar geri ekki. „Danskir kennarar eru oft hræddir við foreldra. Enda er sífellt verið að draga sérfræðiþekkingu kennara í efa.“

Politiken hefur eftir Tinu Nedergaard, menntamálaráðherra Danmerkur, að ein ástæða þessarar slæmu útkomu í PISA sé að foreldrar standi ekki við bakið á kennurum. Þeir taki ekki þá ábyrgð sem þeim beri á námi barna sinna.

Ørsted segir að finnskir foreldrar hlýði tilmælum frá skólanum. Til dæmis ef þeir eru beðnir um að sinna heimanámi, þá geri þeir  það athugasemdalaust. Hann segir að finnskum foreldrum myndi ekki koma til hugar að hringja heim til kennara á öllum tímum sólarhrings til að gera athugasemdir við kennsluhætti, eins og tíðkist í Danmörku.

Hann segir að það sé viðhorf margra danskra foreldra að námið og skólagangan sé algerlega á ábyrgð skólans, fari eitthvað úrskeiðis, sé ekki við þá að sakast.

Ørsted telur að eina leiðin til að bæta úr þessu sé að auka fagvitund kennara og efla sjálfstraust þeirra. Hann bendir á að kennaramenntun sé talsvert lengri í Finnlandi en í Danmörku.

Formaður danskra foreldrasamtaka, Skole og Forældre, vísar því á bug að danskir foreldrar hlaupist undan ábyrgð og bendir á að það sé á ábyrgð skólans að láta foreldra vita hverjar skyldur þeirra séu í skólagöngunni.

Frétt Politiken


Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert