Noregur og Evrópusambandið komust í gærkvöldi að samkomulagi um makrílkvóta á Norðaustur-Atlantshafi á næsta ári. Skv. samkomulaginu verður hann 646.000 tonn og er innan þess sem vísindamenn hafa ráðlagt.
Þá verður kvóti Breta hækkaður sem nemur 14.000 tonnum í 190.000 tonn.
Samkomulagði náðist þrátt fyrir að bæði Færeyingar og Íslendingar hafi neitað að undirrita þríhliða samkomulag um makrílkvóta á Atlantshafi.
Skotar hafa verið harðorðir í garð Færeyja og Íslands og kallað eftir því að komið verði í veg fyrir að þjóðirnar geti tekið einhliða ákvörðun um makrílkvótann.
Skoski þingmaðurinn Struan Stevenson hefur m.a. sagt að afstaða þjóðanna sé hrokafull gagnvart ábyrgri fiskveiðistefnu Skota.
Menn vonast hins vegar til að Íslendingar og Færeyingar muni setjast aftur að samningaborðinu.