Richard Nixon, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði að gyðingar væru óþolandi og Henry Kissinger, þjóðaröryggisráðgjafi hans, sagði að Bandaríkjamönnum væri alveg sama þó sovéskir gyðingar væru settir í gasklefana. Þetta kemur fram í hljóðupptökum Hvíta hússins sem nýlega voru birtar.
Alls erum um að ræða um 265 klukkustundir af upptökum sem bókasafn forsetans fyrrverandi í Kaliforníu birti nýlega.
„Gyðingar hafa ákveðin sérkenni. Írar hafa ákveðin...til dæmis geta Írar ekki drukkið. Þú verður alltaf að minnast þess með þá írsku að þeir verða illir. Nánast allir Írar sem ég hef kynnst hafa orðið illir með víni. Sérstaklega þeir raunverulega írsku,“ sagði Nixon í samtali við háttsettan ráðgjafa í febrúar árið 1973.
„Ítalirnir, að sjálfsögðu, það fólk er ekki með höfuðið skrúfað fast við búkinn. Þeir eru frábært fólk en...“ sagði Nixon áður en hann missti þráðinn í samtalinu. Voru samtölin birt í The New York Times í dag.
Nixon gerði þó greinamun á gyðingum frá Ísrael, sem hann virti, og bandarískum gyðingum. Sagði hann: „Gyðingarnir eru mjög ágengir, grófir og óþolandi persónuleikar.“
Þá var forsetinn fyrrverandi fullur efasemda um skoðanir utanríkisráðherra síns, William Rogers, á svörtum Afríkubúum.
„Bill Rogers er, það er honum til hróss, það er virðingarverð tilfinning, en hann er svolítið blindur á málefnin með þá svörtu af því að hann hefur verið í New York. Hann segir sem svo 'Þeir eru að læra, þeir eiga eftir að styrkja landið á endanum af því að þeir eru svo sterkir líkamlega og sumir þeirra eru gáfaðir' og svo framvegis.“
„Mín eigin skoðun er sú að hann hafi rétt fyrir sér ef þú er að tala um 500 ára tímabil. Ég held það sé rangt ef þú er að tala um 50 ára tímabil. Það sem þarf að gerast í hreinskilni er að það þarf að innrækta þá. Það er það eina sem virkar,“ sagði Nixon sem sagði af sér vegna Watergate-málsins í ágúst 1974 og lést árið 1994.
Þá hafnaði Henry Kissinger áköllum um að Bandaríkin þrýstu á stjórnvöld í Sovétríkjunum um að leyfa gyðingum að flytja úr landi til að sleppa við ofsóknir.
„Brottflutningur gyðinga frá Sovétríkjunum er ekki takmark bandarískrar utanríkisstefnu. Og ef þeir setja gyðingana í gasklefa í Sovétríkjunum þá kemur það Bandaríkjunum ekki við. Hugsanlega væri það mannúðarmál,“ sagði Kissinger.
„Ég veit,“ svaraði Nixon. „Við getum ekki farið að sprengja upp heiminn út af því.“