Barack Obama Bandaríkjaforseti hringdi í forsætisráðherra Tyrklands og forseta Mexíkó í dag til þess að ræða uppljóstranir Wikileaks sem forsetinn kallaði ömurlegar. Sagði hann að þær ættu ekki að verða til þess að skaða samskipti ríkjanna.
„Forsetinn lýsti vonbrigðum sínum með ömurlegar gjörðir Wikileaks og leiðtogarnir tveir voru sammála um að láta það ekki hafa áhrif eða trufla nána samvinna Bandaríkjanna og Tyrklands,“ sagði í tilkynningu frá Hvíta húsinu um samtal Obamas við Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands.
Þá hringdi Obama í Felipe Calderón, forseta Mexíkó, og urðu þeir ásáttir um að óábyrgar aðgerðir Wikileaks yrðu ekki til þess spilla mikilvægri samvinnu landanna tveggja.
Er þetta harðasta gagnrýni Obamas á uppljóstrunarsíðuna en hún hefur vakið bæði harða gagnrýni og fengið mikinn stuðning í kjölfar leka þeirra á bandarískum sendiráðspóstum.
Tyrkland var sérstaklega í sviðsljósinu þar sem tæplega 8.000 skjöl komu frá bandaríska sendiráðinu í Ankara, flest allra sendiráða. Er símtal Obamas talið tilraun til þess að róa tyrknesk stjórnvöld sem eru lykilbandamaður Bandaríkjanna á svæðinu. Hafa tyrkneskir embættismenn brugðist ókvæða við sumum af þeim upplýsingum sem koma fram í póstunum.
Fyrr í þessum mánuði neitaði Erdogan algerlega að hann ætti leynilega bankareikninga í Sviss og stundaði fjársvik eins og bandarískir embættismenn héldu fram í póstunum sem Wikileaks birti.
„Ég á ekki eyri á svissneskri bankabók. Ef það verður sannað þá mun ég segja af mér,“ sagði Erdogan reiðilega í ræðu í Ankara. Hvatti hann stjórnvöld í Washington til að draga embættismennina til ábyrgðar fyrir rógburð byggðan á lygum og ónákvæmum skoðunum. Sagði hann að aðstoðarmenn sínir væru að kanna möguleikann á lögsókn gegn höfundum póstanna.