Wikileaks-gögn geymd í Svíþjóð

Upplýsingar sem hafa verið birtar á vef Wikileaks eru geymdar á öruggum stað í neðanjarðarbirgi Bahnhof gagnaversins í Stokkhólmi í Svíþjóð, þar sem Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið ákærður fyrir nauðgun.

Assange situr nú á bak við lás og slá í Bretlandi þar sem hann var handtekinn eftir að alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur honum vegna ákæranna í Svíþjóð. Þarlend yfirvöld hafa krafist þess að hann verði framseldur.

Á vefþjónum fyrirtækisins eru einnig upplýsingar sem Wikileaks á eftir að birta. Framkvæmdastjóri Bahnhof gagnaversins segir að Svíar hafi ávallt verið málsvarar tjáningarfrelsisins.

„Við í Svíþjóð vorum á meðal þeirra fyrstu sem áttuðu sig á því hvernig hægt væri að nýta netið til góðs. Við njótum þess að vera opin og teljum að allir eigi að hafa greiðan aðgang að upplýsingum,“ segir Jon Karlung í samtali við Reuters.

Þá vill móðir Assange, sem er búsett í Ástralíu, að áströlsk stjórnvöld geri meira til að aðstoða son sinn. Hún undrast að þau séu á meðal þeirra sem hafi saki Assange um að hafa framið glæp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert