Stewart Stevenson, samgönguráðherra Skotlands, hefur sagt af sér vegna þeirra umferðartafa sem urðu eftir að snjókoma setti allt athafnalíf í Skotlandi á annan enda fyrir nokkrum dögum.
Gríðarlegar tafir urðu á umferð eftir mikla snjókomu í Skotlandi. Fjölmiðlar fengu Stevenson í viðtöl þar sem hann var m.a. spurður hvort ekki hefði verið hægt að standa betur að upplýsingagjöf til almennings vegna snjókomunnar. Hann svaraði því til að viðbrögðin við snjókomunni hefðu verið „fyrsta flokks“. Þessi ummæli urðu til að þess að auka enn á gangrýni á ráðherrann.
Stevenson sagði að ráðherra ætti ekki að þurfa að taka á sig sök vegna mestu snjókomu sem þessi kynslóð hefði upplifað. Það fór samt svo að ráðherrann ákvað að segja af sér. Hann sagðist ekki vilja vera notaður sem vopn í baráttu stjórnarandstöðunnar, en tók jafnframt fram að hann teldi að almenningur hefði ekki fengið þær upplýsingar sem hann hefði átt rétt á að fá.