Julian Assange hefur verið leystur úr haldi á grundvelli tryggingar að upphæð 240 þúsund sterlingspunda.
Saksóknari í málinu hefur áfrýjað úrskurði dómarans. Assange verður því enn undir eftirliti næstu tvo sólarhringa þar til mál hans verður tekið fyrir hjá efra dómstigi. Hann má ekki yfirgefa landið og verður að bera GPS staðsetningartæki á sér svo hægt sé að staðsetja hann.
Kvikmyndaleikstjórinn Ken Loach, Jemina Khan og blaðamaðurinn John Pilger greiddu um 180 þúsund pund en Vaughn Smith, stofnandi blaðamannafélagsins Frontline, greiddi það sem vantaði.
Ströng skilyrði eru lögð til grundvallar því að Assange er leystur úr haldi.
Julian Assange var haldið í gæsluvarðhaldi frá því hann gaf sig fram við lögreglu í síðustu viku. Honum var haldið á grundvelli ákæru um kynferðisbrot sem gefin var út af saksóknara í Svíþjóð. Assange var hafður í einangrun. Hann gat því á afar takmarkaðan hátt haft samskipti við stuðningsmenn og fjölskyldu.