Berlusconi stóð af sér vantraust

Forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, stóð af sér vantraust í báðum deildum ítalska þingsins en greidd voru atkvæði um vantrausttillögu á hendur ríkisstjórn hans í dag. Einungis munaði 3 atkvæðum í neðri deild þingsins en fyrirfram var talið fullvíst að tillögunni yrði hafnað í öldungadeildinni

Samkvæmt frétt á vef BBC var ástandið eldfimt í þinghúsinu í Róm í dag og ekki dró úr spennunni að fjölmenn mótmæli voru fyrir utan.

Berlusconi varaði þingheim við því í gær að samþykkja vantrausttillöguna þar sem það gæti aukið kreppuna í landinu. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Berlusconi kemst í hann krappan á þeim sextán árum sem hann hefur verið í framvarðasveit ítalskra stjórnmála en sjaldan hefur staða hans verið jafn tæp, samkvæmt fréttaskýrendum.

Alls greiddu 314 atkvæði með Berlusconi í neðri deildinni en 311 greiddu atkvæði á móti honum. Tveir sátu hjá.

Tugir þúsunda mótmælenda eru samankomnir í helstu borgum Ítalíu þar sem krafan er að Berlusconi segi af sér embætti. Í Róm hefur flöskum verið kastað og kveikt í flugeldum en lögregla hefur svarað með því að sprauta táragasi í átt að mótmælendum.

Silvio Berlusconi á þingi í dag
Silvio Berlusconi á þingi í dag Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert