Móðir Julian Assange ræddi við son sinn í síma nokkrum klukkustundum áður en hann var færður fyrir dómara í Bretlandi í dag, þar sem framsalskrafa sænskra yfirvalda verður tekin fyrir og hvort Assange verði áfram í haldi lögreglu eða sleppt gegn greiðslu tryggingar.
Christine Assange, sem er búsett í Ástralíu, er nú stödd í Bretlandi. „Ég get ekki lýst þessu með orðum. Ég er tengdist honum aftur, ég náði sambandi,“ sagði hún.
Julian Assange hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna lekans, en hann hefur verið spurður hvort allt það sem hann hafi gengið í gegnum hafi verið þess virði.
„Ég bý yfir óbilandi sannfæringu. Ég stend við þær hugmyndir sem ég hef komið á framfæri. Núverandi kringumstæður munu ekki breyta því. Þetta ferli hefur í raun styrkt mig í þeirri trú að þetta sé satt og rétt,“ segir í yfirlýsingu Assange.
Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um nokkur fyrirtæki sem eru með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.
„Nú vitum við að Visa, Mastercard, Paypal og aðrir eru stjórntæki í bandarískra stjórnvalda í þeirra utanríkisstefnu. Það er eitthvað sem við vissum ekki.“
Móðir Assange hvetur ríki heims til að standa með syni sínum, sem hún segir að sé hugrakkur. Hann var handtekinn í Bretlandi í síðustu viku, en hann er sakaður um kynferðisbrot í Svíþjóð.