Tekinn af lífi með dýralyfi

Karlmaður var í nótt tekinn af lífi í Oklahoma í Bandaríkjunum með því að dæla í hann lyfi, sem notað er til að svæfa dýr. Er þetta í fyrsta skipti sem lyfið er notað við aftökur en ástæðan er sú að skortur er á þeim lyfjum, sem notuð eru við aftökur í Bandaríkjunum.

Fangelsisyfirvöld notuðu lyfið pentobarbital, sem dýralæknar nota til að svæfa dýr, til að taka John Duty, 58 ára, af lífi. Duty var dæmdur til dauða eftir að hafa kyrkt klefafélaga sinn, Curtis Wise, þegar hann afplánaði ævilangan fangelsisdóm. 

Skortur hefur verið á lyfinu sodium thiopental, deyfandi lyfi sem notað er ásamt fleiri lyfjum við aftökur í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að birgðir lyfjafyrirtækisins Hospira kláruðust en Hospira er eina fyrirtækið sem framleiðir lyfið. 

Til stendur að hefja framleiðsluna aftur á næsta ári en á meðan hafa yfirvöld í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna neyðst til að fresta aftökum, kaupa lyfið frá öðrum ríkjum eða frá útlöndum en til þess þarf leyfi bandarískra stjórnvalda.

Bandarískur dómstóll féllst á að Oklahoma mætti nota dýralyfið og hugsanlegt er að fleiri ríki fylgi í kjölfarið.   Þessi ákvörðun hefur hins vegar sætt gagnrýni og segja sérfræðingar að lyfið sé hugsanlega ekki nógu öflugt til að halda dauðamönnum meðvitundarlausum á meðan banvænum lyfjum er sprautað í þá 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert