Bank of America hefur nú slegist í hóp fleiri bandarískra peningastofnana sem neita að afgreiða peningasendingar til uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks. Þetta kemur fram á vefsíðu The Washington Post í dag.
Afstaða peningastofnana og greiðslumiðlana á borð við MasterCard Inc., Visa Inc., PayPal Inc. og Amazon.com, sem einnig hafa skorið á samskipti við WikiLeaks, er talin valda fjárhagslegum þrýstingi á uppljóstrunarsíðuna.
Sem kunnugt er hefur WikiLeaks birt fjöldan allan af póstum starfsmanna bandarísku utanríkisþjónustunnar. Ákvörðun fyrirtækjana um að miðla ekki greiðslum til WikiLeaks eða þjóna síðunni á annan hátt hefur valdið fjölda tölvuárásaá fyrirtækin.
WikiLeaks hefur boðað birtingu upplýsinga um banka og er talið að þær geti m.a. varðað Bank of America en síðan kveðst hafa skjöl um bankann í sínum fórum að sögn The Washington Post. Bank of America gaf út yfirlýsingu í gær um ákvörðun sína.
Í yfirlýsingunni sagði að ákvörðunin byggi á þeirri trú að WikiLeaks kunni að vera að taka þátt í starfsemi sem sé ekki í samræmi við innri reglur um miðlun greiðslna.