„Sögulegt skref“, segir Obama

Barack Obama
Barack Obama Reuters

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fagnaði í dag samþykkt öldungadeildar Bandaríkjaþings á frumvarpi um að samkynhneigðum verði opinberlega leyft að þjóna í bandaríska hernum. Obama kallaði þetta „sögulegt skref“.

„Öldungadeildin hefur í dag stigið sögulegt skref í þá átt að binda endi á stefnu sem grefur undan þjóðaröryggi um leið og hún brýtur í bága við þær hugsjónir sem hugrakkir karlar og konur í einkennisbúningum hætta lífi sínu til að verja,“ sagði Obama.

Atkvæði í öldungadeildinni féllu 63-33 þegar kosið var um að ljúka umræðu um frumvarp sem fól í sér að fella úr gildi málamiðlun frá 1993 sem kölluð hefur verið „Ekki spyrja - Ekki segja“. Þar með var felld úr gildi síðasta stóra hindrunin fyrir því að falla frá þessari stefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert