Hátæknihryðjuverkamaður

00:00
00:00

Joe Biden, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, sagði í sjón­varpsþætti í dag að banda­rísk stjórn­völd væru að leita leiða til að draga Ju­li­an Assange, stofn­anda upp­ljóstr­un­ar­síðunn­ar Wiki­Leaks, fyr­ir dóm. Sagði Biden, að Assange væri hættu­leg­ur „há­tækni­hryðju­verkamaður."

„Við erum að skoða það núna," sagði Biden í þætt­in­um Meet the Press á NBC sjón­varps­stöðinni í dag þed­g­ar hann var spurður hvort stjórn­völd ætluðu að ákæra Assange fyr­ir að birta banda­rísk leyniskjöl á vefn­um. Biden vildi hins veg­ar ekki tjá sig nán­ar um hvaða leiðir verið væri að skoða.

Þegar Biden var spurður hvort hann teldi að Assange væri tækni­vædd­ur hryðju­verkamaður eða upp­ljóstr­ari svipaður Daniel Ells­berg, sem birti Pentagonskjöl­in á sín­um tíma, svaraði vara­for­set­inn: „Ég myndi færa fyr­ir því rök að hann sé nær því að vera há­tækni­hryðju­verkamaður."

Assange sagði á föstu­dag að hann teldi lík­ur stöðugt aukast á því, að Banda­ríkja­stjórn reyni að fá hann fram­seld­an til að svara til saka fyr­ir að birta banda­ríska sendi­ráðspósta. 

Sér­fræðing­ar Banda­ríkjaþings hafa kom­ist að þeirri niður­stöðu, að hægt sé að sækja Assange til saka á grund­velli banda­rískra laga en ekk­ert for­dæmi er fyr­ir því að ákæra út­gef­end­ur fjöl­miðla á grund­velli þeirra laga. 

Biden sagði í sjón­varpsþætt­in­um, að Wiki­Leaks hefði valdið tjóni með því að birta sendi­ráðspóst­ana. Þá hafi Assange stofnað lífi og starfi fólks í hættu með því að birta skjöl­in.

Biden viður­kenndi einnig, að aðrir þjóðarleiðtog­ar hefðu áhyggj­ur af lek­an­um. „Menn vilja nú frek­ar eiga fundi með mér ein­um en að hafa starfs­fólk í fund­ar­saln­um," sagði hann. 

Joe Biden.
Joe Biden. Reu­ters
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert