Tafir vegna snjóa í Evrópu

Snjóruðningstæki á þjóðvegi nálægt Frankfurt.
Snjóruðningstæki á þjóðvegi nálægt Frankfurt. Reuters

Um 490 flug­ferðir sem áætlaðar voru um flug­völl­inn í Frankfurt í Þýskalandi í dag voru felld­ar niður. Ástæðan var mik­il snjó­koma sem valdið hef­ur öngþveiti í sam­göng­um víða í Evr­ópu. Fjöldi fólks hef­ur látið fyr­ir­ber­ast í bíl­um sín­um á snjóteppt­um veg­um allt suður til Ítal­íu.

Vetr­ar­veður í Bretlandi veld­ur því að stærstu flug­vell­ir lands­ins eru ým­ist lokaðir eða flug­um­ferð tak­mörkuð um þessa síðustu helgi fyr­ir jól­in. Heathrow-flug­völl­ur í London, fjöl­farn­asti alþjóðaflug­völl­ur í heimi, var lokaður lengst af í dag og var opnaður í dag að hluta. Ein­ung­is fáar flug­vél­ar fóru þó í loftið þaðan. Ástandið var svipað á Gatwick-flug­velli.

Flug­vél­ar voru einnig kyrr­sett­ar vegna snjó­komu á Stan­sted og Lut­on-flug­völl­um við London og í Bir­ming­ham og Sout­hham­t­on. 

Talsmaður flug­vall­ar­ins í Frankfurt sagði reiknað með snjó­komu um miðjan dag­inn og geti hún haldið áfram til miðnætt­is. Ekki var talið ólík­legt að enn fleiri flug­ferðum af þeim 1.300 sem áætlaðar voru um Frankfurt í dag verði felld­ar niður.

Mörg hundruð strandaglópa eyddu nótt­inni á bedd­um sem sett­ir voru upp í flug­stöðinni í nótt, sum­ir dvöldu þar aðra nótt­ina í röð.

Óvenju mikið fann­fergi olli því að mörg hundruð flug­ferða féllu niður á föstu­dag og laug­ar­dag. Vetr­ar­ríki á öðrum flug­völl­um í Evr­ópu átti einnig sinn þátt í því. 

Nú er jólaum­ferð haf­in og koma þess­ar taf­ir sér illa fyr­ir fjölda fólks sem ætlaði að ferðast fyr­ir jól­in. Luft­hansa flug­fé­lagið hef­ur ráðlagt fólki að not­færa sér ferðir þýsku járn­braut­anna, en þær hafa raun­ar einnig lent í seink­un­um og töf­um vegna snjó­kom­unn­ar.

Eurost­ar-hraðlest­in, sem held­ur uppi lest­ar­ferðum milli London, Par­ís­ar og Brus­sel, gat ekki haldið full­um hraða og lengd­ist ferðatím­inn um klukku­stund.

Þjóðveg­ir víða um álf­una eru einnig teppt­ir eða sein­fær­ir vegna snjóa og hálku. Hundruð bíl­farþega eyddu nótt­inni í bíl­um sín­um í Lancashire í norðvest­ur Englandi eft­ir að slys lokaði aðal­veg­in­um á svæðinu. Frostið fór niður í -17°C í Norwich í Aust­ur-Englandi. Kuld­inn á Gatwick var -11°C í morg­un.

Fjölda knatt­spyrnu­leikja í Englandi hef­ur verið slegið á frest vegna veðurs­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert