Bandaríska tímaritið Foreign Policy hefur birt lista yfir 100 manns sem það telur vera merkustu hugsuði ársins og tróna þeir efstir og jafnir, auðkýfingarnir Warren Buffett og Bill Gates. Framlag þeirra er að hafa ákveðið að gefa tugmilljarða dollara til góðra verka.
Í bókinni The Snowball sem Alice Schroeder ritar um ævi Buffett kemur fram að mikill vinskapur er með Gates og Buffett og nær hann aftur um nokkra áratugi. Er það Gates sem fékk Buffett til þess á sínum tíma til að gefa auð sinn til góðra verka.
Ritinu nægði reyndar ekki að nefna 100 manns, eins og til stóð, á listanum eru 120 nöfn vegna þess að oft deila menn sæti, eins og Buffett og Gates. Foreign Policy fjallar fyrst og fremst um alþjóðamál og er mjög áhrifamikið á því sviði.
Í öðru sæti eru Dominique Strauss-Kahn og Robert Zoellick, sá fyrrnefndi er yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hinn fer fyrir Alþjóðabankanum. Þeim er hælt fyrir að hafa framtíðarsýn í krepputíð. Barack Obama Bandaríkjaforseti er fimmti og hann er sagður hafa „mótað stefnu án þess að hafa áhyggjur af gagnrýni“.
Aðeins um fjórðungur hugsuðanna er úr röðum kvenna, Angela Merkel Þýskalandslanslari er númer 10. Hillary Clinton deilir 13. sætinu með eiginmanni sínum, Bill.