Kaldasti dagur í 15 ár í Danmörku

Frost og snjór
Frost og snjór

Vetrarkuldarnir í Danmörku náðu nýjum hæðum í morgun. Viðlíka kuldakast hefur ekki gengið yfir landið í 15 ár og þegar Danir skriðu á fætur undir rauðum mána í morgun tók dagurinn á móti þeim með allt að -21,5° frosti.

Á Jótlandi  var frostið víða um 15 stig  og þótti íbúum nóg um. Kaldast var hinsvegar í hafnarbænum Hvide Sande þar sem hitamælirinn sýndi -21,5° um tíuleytið í morgun. Þetta er óvenjukalt fyrir desembermánuð og jafnframt mesti kuldi sem mælst hefur í Danmörku í 15 ár, að sögn Børsen.

Það var í desember 1995 sem síðast frysti jafnhressilega hjá Dönum og það var líka í síðasta skipti sem jólin voru hvít um alla Danmörku. Það þarf hinsvegar að fara 23 ár aftur í tímann til að slá metið, en í mars 1987 var enn kaldara þegar frostið mældist -25,6° C.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert