Sérstaða Bandaríkjanna í heiminum verður í fyrirrúmi í forsetakosningunum 2012, að mati áhrifamikilla repúblikana. Verði sú raunin er það talið gætu reynst Barack Obama forseta illa, í ljósi þess að minnihluti landsmanna telur að forsetinn trúi á sérstöðu landsins á alþjóðavettvangi.
Með sérstöðunni er átt við að Bandaríkin standi fyrir einstök gildi, á borð við frelsi til athafna og trú á einstaklinginn, og hafi þar með hlutverki að gegna í heimsmálum við útbreiðslu þeirra gilda.
Fjallað er um málið á vef Usa Today en þar er þessi trú sett í samhengi við þá skoðun að Bandaríkin séu „frábrugðinn og betri staður en nokkur annar á jörðinni“.
Sósíalismi forsetans
Haft er eftir repúblikanum Newt Gingrich, sem íhugar forsetaframboð 2012, að Obama hafi tileiknað sér veraldlega og sósíalíska heimssýn Evrópu.
Gingrich sakar forsetann um að hafa horfið frá trúnni á sérstöðu Bandaríkjanna sem að hans mati verður eitt af þremur helstu málum kosningabaráttunnar 2012, þegar Obama á kost á endurkjöri.
Blaðið vitnar til eigin skoðunakönnunar um að fjórir af hverjum 10 Bandaríkjamönnum efist um að Obama trúi að Bandaríkin hafi sérstök einkenni sem geri þau að mesta ríki heims. Munu það vera tvöfalt fleiri en lýsa slíkum efasemdum um Bill Clinton, forseta 1993 til 2001. Þá munu nífalt fleiri telja að Ronald Reagan, forseti 1981 til 1989, hafi trúað á sérstöðu Bandaríkjanna en gera það ekki, hlutfall sem aðeins er 3 á móti 2 hjá Obama.
Hafa engan áhuga á hnignun
Einnig er rætt við Mike Pence, repúblikana frá Indiana sem sagður er íhuga forsetaframboð líkt og Gingrich, og er hann ekki í vafa um að hugmyndir um sérstöðu landsins muni vega þungt í næstu kosningum.
„Tilfinning manna er að margir leiðtogar í Washington álíti það hlutverk sitt að stjórna hnignun Bandaríkjanna en Bandaríkjamenn hafa engan áhuga á bandarískri hnignun,“ segir Pence og sendir sneið til forsetans og liðsmanna hans.
Benti Pence svo á að vaxandi skuldabyrði og fjárlagahalli hefði fengið Bandaríkjamenn til að staldra við og íhuga hvað gerði Bandaríkin sérstök.