Barnaskari Friðriks krónprins er stöðutákn

Mary krónprinsessa og Friðrik krónprins eiga von á tvíburum í …
Mary krónprinsessa og Friðrik krónprins eiga von á tvíburum í janúar. AP

Þegar tvíburar Friðrik krónprins og Maríu prinsessu koma í heiminn tvöfaldast barnahópur þeirra hjóna. Með fjögurra barna fjölskyldu mun krónprinsinn senda frá sér skýr skilaboð um að stórar fjölskyldur séu eftirsóknarverðar.

Þetta er mat Johan Peter Paludan, framkvæmdastjóra stofnunnar um framtíðarspár (Institut for Fremtidsforsknin) í Danmörku. Það heyrir orðið til undantekninga í Danmörku að fólk eignist stórar fjölskyldur og Politiken hefur eftir Paludan í dag að tvíburafæðing Friðriks og Maríu muni tryggja það nýja viðhorf í sessi að stór barnahópur sé ákveðið stöðutákn.

Þótt margir kunni að vilja feta í fótspor krónprinsins og prinsessunnar og eignast stóra fjölskyldu þá hafa fæstir efni á því eða tíma til þess. Það eru því aðeins „einstaka fjölskyldur í yfirstétt sem hafa möguleika á því að leika þetta eftir" segir Paludan. Þeir sem eiga nægan tíma og peninga eru nefnilega byrjaðir að móta sér sérstöðu með því að eignast mörg börn.

Þótt þeir verði eftirsótt fyrirmynd munu litlu tvíburarnir sem bráðum eru væntanlegir í konungsfjölskylduna samt ekki hafa merkjanleg áhrif á fæðingartíðni í Danmörku að mati Paludan, því þótt fæðing þeirra staðfesti að barnaskari sé stöðutákn þá hafa félagslegar- og efnahagslegar aðstæður ekki breyst fyrir meðaljóninn í Danmörku. „Lífstíll kóngafólksins er svo ólíkur hins almenna Dana. Fólk les um það í blöðunum, en þrátt fyrir að Dönum finnist lífið í konungshöllinni áhugavert þá snýr það sér aftur að raunveruleikanum að lestri loknum og fyrir flesta er þetta í raun staðfesting á því að stór barnahópur fari ekki saman með þeirra hversdagslífi."

Danir bíða þó fæðingu tvíburanna í ofvæni, en þeir eru væntanlegir í heiminn í janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka