Ríkisstjórn Indlands glímir nú við vaxandi reiði almennings vegna svimandi verðhækkana á lauk og brást í dag við með því að afnema tolla og innflutningsgjöld á grænmetinu til að reyna að ná taumhaldi á verðhækkununum. Laukur er grundvallarhráefni í indverskri matargerð.
Forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, hefur lýst yfir „þungum áhyggjum" af því að laukur hafi tvöfaldast í verði á örfáum dögum og kallar hann eftir kerfisbundnum aðgerðum til að ná verðinu niður. Laukur hefur yfirleitt verið eitt ódýrasta grænmetið á markaðnum og þar af leiðandi stór þáttur í mataræði fátækustu stéttanna, sem nota hann óspart til að bragðbæta matinn.
Verðlagið á lauk er orðin forsíðufrétt á indverskum dagblöðum enda hafa hækkanirnar mikil áhrif á almenning, en einnig pólitísk áhrif, eins og stjórnmálamenn vita fullvel enda minnugir um þegar stjórnarflokknum BJP var hafnað gjörsamlega í héraðskosningum í Delhi eftir miklar verðhækkanir á lauk.
Auk þess að afnema tolla hefur ríkisstjórnin gripið til þess að banna útflutning á lauk en varar jafnframt við því að verðlagið muni samt sem áður haldast hátt í nokkrar vikur vegna monsúnrigninga í vesturhluta landsins þar sem laukræktun er mest.