Bandarískir leikfangaframleiðendur gera sér vonir um að börn á aldrinum frá 9 til 12 ára reynist góður markhópur í jólaösinni en þeir ræða sín á milli um aldurshópinn sem „tweens“, eða „barnalinga“, í lauslegri þýðingu, með vísan til þess að ungmennin eru hvorki börn eða unglingar.
Fjallað er um málið á vef USA Today en þar segir að kaupgeta þessa hóps sé gríðarleg, eða 43 milljarðar dala, eða sem svarar 5.021 milljarði króna á núverandi gengi.
Til samanburðar er þjóðarframleiðsla á Íslandi áætluð um 1.500 milljarðar króna í fyrra.
Barnalingar hafa valdið leikfangaframleiðendum höfuðverk vegna þess að börn eru farin að eldast hraðar, eftir því sem unglingsárin eru færð neðar með tískustraumum og markaðssetningu.