Með því að samþykkja samning um fækkun kjarnorkuvopna eru Bandaríkin að senda skýr skilaboð til heimsins. Þetta sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í kvöld, en öldungadeildin samþykkti samninginn með 71 atkvæði gegn 26.
„Ég er ánægður með að demókratar og repúblikanar hafa sameinast um það mál sem ég hef sett í algjöran forgang í öryggismálum, þ.e. START-samninginn,“ sagði Obama.
„Þetta er mikilvægasti samningur um fækkun kjarnorkuvopna sem gerður hefur verið í tvo áratugi og hann mun auk öryggi okkar. Hann felur í sér fækkun kjarnorkuvopna okkar og Rússa,“ sagði Obama.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í kvöld að hann fagnaði samþykkt Bandaríkjaþings. Hann sagði að rússnesk stjórnvöld þyrftu að fá tíma til að skoða betur niðurstöðu þingsins. Rússar eru ekki búnir að samþykkja samninginn fyrir sitt leyti, en búist er við að þeir geri það í vor.