Tommy Sheridan, fyrrverandi þingmaður Skoska verkamannaflokksins, hefur verið dæmdur fyrir meinsæri, en hann fór fyrir nokkrum árum í mál við blaðið News of the World eftir að blaðið birti frétt um að hann hefði sótt klúbb þar sem pör skiptust á rekkjunautum.
Haustið 2004 birti News of the World fréttir um að Sheridan hefði heimsótt svokallaðan swingers' club, þar sem pör skiptast á rekjunautum. Jafnframt birti blaðið viðtal við konu sem sagðist hafa átt mök við þingmanninn.
Sheridan sagði af sér þingmennsku þrátt fyrir að neita sök. Hann ákvað síðan að fara í mál við blaðið og fékk dæmdar 200 þúsund pund í bætur.
Nokkrum mánuðum eftir að dómurinn féll birti blaðið myndband þar sem Sheridan játar að hafa heimsótt klúbbinn. Í kjölfarið var hann kærður fyrir meinsæri.
Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að Sheridan væri sekur um meinsæri. Dómari er ekki búinn að kveða upp úr um hvað hann fær langan fangelsisdóm.
Sheridan flutti tilfinningaríka ræðu áður en kviðdómur komst að niðurstöðu sinni þar sem hann bað dóminn um að senda sig ekki í fangelsi. Hann ræddi við blaðamenn eftir að niðurstaðan lá fyrir. Hann sagðist hafa barist gegn því hvernig blöðin beittu valdi sínu. Hann sagðist ekki sjá eftir því að hafa farið í mál við News of the World.